miðvikudagur, desember 21, 2005

 

Skokk, Hvaleyrarlón og Garðar Cortes...

Ég fór út að labba í gærkvöldi. Konan var algjörlega ,,lost" við að horfa á einhverja fangakarlaþáttaröð að nafni ,,prison break"! Þetta er víst gríðarlega spennandi þáttaröð og hafði hún náð allri athygli konunnar minnar, svo niðurlútur : ) sagði ég við sjálfan mig: út vil ek....! Ákvað að taka ,,í poðinn" með og leyfa Garðari Cortes að syngja fyrir mig á leiðinni gönguferðarsöngva. Ég segi bara: þessi viðkunnalegi söngvari er afar góður, röddin hans er fjölbreytt og hljómfögur! Ég mæli eindregið með piltnum! Áhugavert verður að fylgjast með honum.

Svo af stað gekk ég. Ferðin var heitið niður úr Háholtinu að Hvaleyrarlóni og að nýja göngustígnum sem nýlega hefur verið gerður norðanmegin við lónið. Hann liggur þar sjómegin framhjá Atlantsolíu og alla leið út að svæðinu þar sem risa flotkvíin liggur út við fjörðinn (noh, það vantar ekki lýsinguna...). Þegar ég var búinn að ganga niður holtið, að þessum afspyrnu sjarmerandi báta- og vinnuskúrum við lónið, lá leiðin yfir torfætt svæði að stígnum.
Ég segi bara: þessi stígur er mjög vel heppnaður! Alveg frábært að þessi hugmynd hafi skollið upp í kollinum á einhverjum grallaranum... Svo endar stígurinn á útsýnisstað! Mér finnst að svona eiga hlutirnir að vera: hugmyndaríkir, hvetjandi og skemmtilegir! Þetta fær fullt hús stjarna, jarðaberja, broskalla og allt það hjá mér : )

Eftir að ég hafði gengið á stígnum svolitla stund (eða hjá honum, hann var nú bara eitt svell...) ákvað ég að létta sporið aðeins og sjá hvort kallinn gæti nú ekki skokkað smá... Mér til ánægju þá var nú bara heilmikið í mig spunnið og skokkaði ég yfir hálfan kílómeter að útsýnissvæðinu án þess að finna mikið fyrir... Þetta var rosalega hressandi!
Fór upp á klappirnar sem eru þarna eru við útsýnispallinn, hvíldi Cortes aðeins og naut stundarinnar. Svona stund finnst mér eitt af því besta ég upplifi: horfa á hafið, heyra í briminu, stjörnurnar birtast á milli skýja og allt í einu... eins og ljóskastara með lifandi, dansandi ljósi væri lýst yfir himinhvolfið - norðurljós! Mmmm... að hugsa sér, eins magnað þetta allt var og vitandi núna sérstaklega á þessum ,,verslunareyðslutímum" að þetta ,,sjó" kostaði ,,ekkert"! Fyrir utan auðvitað svitan og tímann... en, er það nokkuð til væla yfir?

Nú ætlaði ég að halda heim á leið og víst ég var svo duglegur að skokka þennan spotta og komst lífs af, þá ætlaði ég að koma mér á óvart og skokka sömu leið tilbaka og enn lengra! Alla leið að bátaskýlunum inn í lóninu! En það var um 1,3 km kafli... og viti menn, það gekk upp! : )
Rosalega var þetta gott! Að hafa loksins látið verða af því að hreyfa sig eitthvað að ráði. Maður situr liðlangan daginn í vinnunni og er alltaf á leiðinni að fara hreyfa sig svo þetta var kærkomin....
Bara að finna að líkaminn hafi tekið á og erfiðað og svo að hafa komið sér á óvart með hvað maður gæti, var góð tilfinning!
Þegar ég kom heim var skvísan mín ennþá í fanginu á föngunum, það púlseraði á mér andlitið af hita og ég hélt það ætlaði að hreinlega springa... áttaði svo á að það var bara mér sjálfum að kenna! Var vel klæddur og orðinn sjóðheitur eftir hlaupin.... : )
En, svona í raun, var ég sáttur við mína og engin afbrýðissemi í gangi á þessum bæ!

Að launum eftir Cortesskokkið, var splæst á sig glasi af gosi og smá suðusúkkulaði...

Svona getur lífið litið út hjá mér....

Skoðun:
Frábært að lesa þetta ;) En það er nú samt spælandi að fangarnir eru búnir í bili :( Verð að redda mér fleiri þáttum. Á reyndar bara eftir að horfa á 2 í röðinni, get fengið einn en verð að bíða með síðasta fram í mars :(
En þetta eru SNILLDAR þættir og ég mæli eindregið með því að þið horfið á þá ;)
 
Þannig eftir þann næstsíðasta verður þú þá laus úr greipum fanganna...?
Þá er best að ég nýti mér það! : )
 
Þið eruð æðisleg:) Arna
 
Skrifa ummæli

<< Á byrjunarreit

This page is powered by Blogger. Isn't yours?