sunnudagur, nóvember 12, 2006

 

Einmana heima!

Já, sit hér í háa holtinu, einn eða kannski ekki alveg... stúlkurnar eru fyrir austan í Húsinu við ána en ég hef nokkra hitabeltisfiska og krabba mér til félagsskapar!

Það er búið að skola burt snjónum sem rétt þakti baktúnið okkar hérna og götur í gær. Hún var ausandi rigningin í dag!

Í gærdag þegar Petra Rut sat ofan á bakinu á stofustólnum við gaflgluggann og horfði út, talaði hún út í loftið við pabba sinn og sagði hve mikið hana langaði að fara núna út á snjóþotu, það yrði sko gaman. Því miður þurfti pabbi hennar að hryggja hana smá því ég er búinn að vera með slæma hálsbólgu síðan á fimmtudaginn og vissi ef ég færi út yrði ég lengi að jafna mig... Þegar ég sagði henni að ég gæti það ekki því ég væri lasinn, sagði hún bara: mamma getur það!
Já, þegar mamma kom úr lærdómsferð niðri í háskóla, viðraði ég þessa hugmynd við hana og tók hún vel í.
Þá byrjaði gamanið.
Íris hjálpaði snúllunum að klæðast í hlý föt og góða kuldagalla... sjá hvað þær voru stoltar að fara í gallana! Petra Rut var nefnilega nýbúin að fá nýjan kuldagalla og var ekkert að fela það hvað henni fannst hann flottur. Hún Katrín Tara er búin að stækka svo mikið að gamli gallinn hennar passaði ekki lengur og fékk hún gamla gallann hennar Petru Rutar... en hann var sem nýr fyrir henni og var hún einnig ekkert að fela ánægjuna!
Svo var farið út að renna!

Já, hugsið ykkur heiminn án þessara kríla?

Nú ætla ég að setja eitthvað Karlottískt undir geislann og ditta aðeins að heimilinu, svona áður en kvennaljóminn minn
gengur um dyrnar inn!

Njótið stundarinnar vel lesendur góðir!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?